top of page

Saga hússins við Norefjell

Byggingasjóður stofnaður

Á fullveldisdaginn þann 1. desember 1923 boðaði Ingimundur Eyjólfsson, sem starfaði sem ljósmyndari í Oslo, nokkra Íslendinga á fund til að stofna Íslendingafélag. Talið var að þá byggju um 30 – 40 Íslendingar í Osló. Margir þeirra voru konur sem giftar voru Norðmönnum. Á þessum fundi var Íslendingafélagið í Osló stofnað. Nokkuð var þar rætt um að hið nýstofnaða félag þyrfti að koma sér upp aðstöðu fyrir félagsmenn að koma saman af ýmsu tilefni. Á fundinum var því samþykkt að stofna „byggingarsjóð Íslendingafélagsins“ sem ætlað var standa að nýbyggingu eða kaupum á húsnæði fyrir félagið. Stofnfé sjóðsins var framlög þeirra sem á stofnfundinn mættu og lagði Ingimundur sjálfur fram 100 kr í sjóðinn.
Næstu árin safnaðist smá saman nokkurt fé í sjóðinn með framlögum félagsmanna auk þess sem nokkrum sinnum var stofnað til kökubasar til ágóða fyrir sjóðinn.

Á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930, er Íslendingar héldu uppá þúsund ára afmæli Alþingis, var mættur fulltrúi Osló borgar. Þar tilkynnti hann að borgarstjórn Oslóar hefði samþykkt að í þessu tilefni ætlaði borgin að gefa í byggingarsjóð Íslendingafélagsins í Osló 30 þúsund norskar krónur. Gjafabréf var afhent en greiðsla fór ekki fram fyrr en löngu seinna og verður komið að því síðar.

Guðrún Brunborg fær lánaðan byggingarsjóð Íslendingafélagsins

Guðrún Brunborg (Bóasdóttir, f. 1896, d. 1973) var íslensk kona sem flutti til Noregs 1918 og giftist þar Salomon Brunborg landbúnaðarfræðingi og eignuðst þau fjögur börn, Olav, Erling, Heidi og Egil. Þegar Noregur var hertekinn af Þjóðverjum 1940 var Olav sonur hennar við nám við Handelshøjskolen í Osló. Olav Brunborg gerðist mjög virkur í norsku neðanjarðarhreyfingunni og ritstýrði m.a. blaði er stúdentar gáfu út, „Go Pa“ og flutti fréttir frá norsku ríkisstjórninni í London. Hann var handtekinn af Þjóðverjum ásamt bróður sínum Erling 1943. Erling var sendur í fangabúðir að Grini en Olav var fangelsaður í aðalstöðvum Gestapo að Møllergata 19 í Oslo. Eftir 6 mánaða dvöl í fangelsi Gestapo í Osló var Olav sendur í útrýmingarbúðir Nasista í Natzweiler-Struthof í Þýskalandi. Þar lést han, eftir aðeins 6 mánuði, úr hungri og slæmri meðferð þann 8. apríl 1944 aðeins 21 árs að aldri. Fjölskylda hans frétti fyrst af afdrifum hans í stríðslok.

Guðrún Brunborg stofnaði minningarsjóð um son sinn, Olav Brunborg Mindefond, sem hafði það markmið að styrkja íslenska námsmenn við nám í Osló. Til að safna fé í sjóðinn hóf hún nú ferðalög um Ísland þvert og endilangt og sýndi myndir frá Noregi, m.a. frá Holmenkollen keppnum. Út um byggðir Íslands hefur þetta þótt nokkur nýlunda því henni tókst að fylla samkomuhús vítt og breytt um landið til að sjá þessar sýningar sínar. Það safnaðist því þó nokkuð fé í minningarsjóðinn.
Á árunum eftir stríð var mikill húsnæðisskortur og erfitt fyrir stúdenta m.a. að fá leigð herbergi. Því var það ákveðið, þegar Norðmenn tóku að sér að halda vetrar-ólympíuleikana í Osló 1952, að Studentsamskipanden í Osló (Félagsstofnun stúdenta) léti byggja stúdentabæ við Sogn í Osló, sem fyrst skyldi þjóna sem„Ólympuþorp“ og hýsa íþróttamennina, en síðan yrði húsnæðið leigt til stúdenta við Háskólann í Osló. Erfiðleikar voru hins vegar með fjármögnun á þessum framkvæmdum. Til að leysa það vandamál var ákveðið að bjóða sveitarfélögum í Noregi að kaupa leigurétti fyrir nokkra stúdenta frá viðkomandi sveitarfélagi. Það tókst nokkuð vel og velflest sveitarfélög landsins keyptu frá 5 til 10 leigurétti eftir stærð og efnahag. Sum sveitarfélög seldu svo fjölskyldum þessa leigurétti sem með þeim hætti tryggðu syni eða dóttur húsnæði ef þau hyggðu á nám í Osló. Þessir leiguréttir gengu svo kaupum og sölum.

Þessir erfiðleikar við að fá húsnæði leigt í Osló komu einnig illa við íslenska stúdenta sem hugðu á nám í Osló. Því sá Guðrún sér leik á borði og samdi við Studentsamskipnaden um að Minningarsjóður Olav Brunborg fengi að kaupa leigurétti fyrir íslenska stúdenta með sama hætti og sveitarfélögin norsku. Hún var nokkuð stórtæk því hún keypti 10 leigurétti sem var álíka og stærri sveitarfélögin gerðu (Hver leiguréttur kostaði 8 þúsund kr. 1952). Þetta þurfti sjóðurinn að borga í einhverjum áföngum. Og jók hún nú umsvif sín á Íslandi með auknum ferðalögum, sýningum í kvikmyndahúsum í Reykjavík og Hafnarfirði og stofnaði einnig til bókaútgáfu.

En nú komu fram nýjir erfiðleikar. Í upphafi 6. áratugarins glímdu Íslendingar við mikinn gjaldeyrisskort. Því voru teknar upp miklar hömlur á yfirfærslu íslenskra peninga yfir í erlenda mynt. Og nú þurfti Guðrún að standa við skuldbindingar gagnvart Studentsamskipnaden í Osló vegna kaupana á leiguréttunum en söfnunarfé Guðrúnar á íslandi var í íslenskum krónum sem hún fékk nú ekki yfirfært í norskar krónur. Nú voru góð ráð dýr. Hún leitaði því til Íslendingafélagsins í Osló og fór fram á að fá lánaðan byggingarsjóð félgsins, sem varðveittur var í banka í Osló, gegn því að samsvarandi upphæð í íslenskum krónum yrði afhent Háskóla Íslands til varðveislu og endurgreiðslu þegar Íslendingafélagið réðist í byggingu eða kaupa á húsnæði í Osló í samræmi við stofnsáttmála byggingarsjóðsins. „Stjórn“(???) Íslendingafélagsins samþykkti þetta. Starfsemi Íslendingafélagsins hafði þá legið niðri um margra ára skeið og á stríðsárunum var öll starfsemi slíkra félags bönnuð af hernámsyfirvöldum. Ráðherra menntamála tók við íslenska sjóðnum og var hann varðveittur sem sérsjóður hjá Háskóla Íslandsþ

Húsakaup við Norefjell

Árið 1965 flytur til Oslóar Skarphéðinn Árnason og tekur við stjórn umboðsskrifstofu Loftleiða í Osló. Skarphéðinn beitir sér fyrir því að endurvekja Íslendingafélagið í Osló og jafnframt byggingarsjóð þess. Í fórum félagsins fannst lítið fé en hins vegar kvittun frá Guðrúnu Brunborg um lán á byggingarsjóðnum og jafnfram skjöl frá íslenskum yfirvöldum um að mótvægi hans væri að finna í sérsjóði við Háskóla Íslands sem skyldi afhentur Íslendingafélaginu í Osló þegar að það réðist í húsbyggingu eða kaupa á húsnæði. Þar var einnig að finna gjafabréf borgarstjórnar Osló borgar frá 1930 en sú gjöf hafði aldrei verið innt af hendi til félagsins í byggingarsjóðinn.
Samþykkt var af stjórn félagsins að ráðast í kaup á húsi fyrir félagsmenn hvort sem væri til samkomuhalds eða afþreyingar. Fólk í stjórn félagsins vissi af gömlu skólahúsnæði í Krødsherad í Buskerud fylki til sölu, rétt við eina mestu skíðaparadís á Austurlandinu, Norefjell, og rétt við vatnið Krødern. Þetta hafði verið lítill heimavistarbarnaskóli í fallegri byggingu á tveimur hæðum með kjallara. Tvær skólastofur höfðu verið á 1.hæð en svefnaðstaða á efri hæð. Skólahaldi var þar löngu hætt og húsið í nokkurri niðurníðslu enda hafði þar engin starfsemi verið í mörg ár. Samgöngur höfðu batnað og farið var að keyra börn í sveitinni í stærri skóla.

Stjórn Íslendingafélagsins í Osló ákvað að kaupa þetta hús ef það fengist á góðu verði og nú hófust harðir samningar við Krødsherad Kommune með tilboðum og móttilboðum. Að endingu náðust samningar um kaup á húsinu fyrir 40 þúsund kr. Þótti mörgum hjá kommununni þetta nokkuð lág upphæð en voru þó sáttir við að losna við húsið. Skarphéðinn Árnason var snjall samningamaður. Allt var þetta gert með fyrirvara um fjármögnun.
Og nú hófst vinnan við að endurheimta byggingarsjóð Íslendingafélagsins sem stofnaður hafði verið 1923 og félagsmenn bætt í með kökubasar og ýmsum framlögum í tímans rás og sem svo var lánaður til Íslands 1952. Jafnframt að innheimta hina rausnalegu gjöf Osló borgar frá Alþingishátíðinni.
Þegar eftir því var leitað kannaðist Oslóarborg vel við gjafabréfið frá Alþingishátíðinni og greiddi Íslendingafélaginu umsvifalaust gjöfina ásamt vöxtum og vaxtavöxtum. Hins vegar var þrautin þyngri að fá endurgreiddan sjóðinn sem Guðrún Brunborg hafði sett sem tryggingu fyrir láninu á byggingarsjóðnum 1952 og afhent hafði verið íslenskum yfirvöldum. Í fyrstu sögðu embættismenn menntamálaráðuneytisins að þeir könnuðust ekkert við þetta mál og síðar að þeir hefðu enga heimild til að afhenda þessa peninga úr sjóði í vörslu Háskólans þrátt fyrir framvísun gagna. Það hjálpaði ekki að Guðrún Brunborg, sem hafði fengið byggingasjóðinn lánaðan, var afar mikið á móti húsakaupum Íslendingafélagsins og endurgreiðslu lánsins. Hún vildi að þessir peningar færu í að byggja húsnæði í Reykjavík fyrir gifta stúdenta!

Nú kom sér vel að Skarphéðinn Árnason, formaður Íslendingafélagsins, var forstöðumaður skrifstofu Loftleiða í Noregi og var því oft á ferðinni á milli Íslands og Oslóar því það þurfti marga fundi með embættismönnum menntamálaráðuneytisins og menntamálaráðherra sjálfum að þoka þessum málum áfram. Menn tregðust við að skila þessum peningum því auðvitað var þessi sjóður hjá Háskólanum horfinn inn í rekstrarhít skólans. Að lokum hótaði Skarphéðinn ráðneytinu að setja málið í hendur norskum lögmönnum. Þá óskaði ráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, eftir því að fá að setja þetta á næstu fjárlög, sem staðfesti að sjóðurinn var horfinn. Það gekk eftir og er ný fjárlög tóku gildi voru þessir peningar greiddir Íslendingafélaginu í Osló.

Í sjóðinn voru nú komin um 60 þúsund kr. Húsið við Norefjell kostaði 40 þúsund svo eftir stóðu 20 þúsund kr. sem þuftu að fara í viðgerðir á húsinu.
Húsið var í nokkuð góðu standi en þakið á því var hins vegar ónýtt svo nú voru fengnir iðnaðarmenn sem skiptu um þak og svo voru aðrir iðnaðarmenn fengnir til að hreinsa og innrétta setustofu með góðum arni í kjallaranum. Þar hafði áður verið kolageymsla. Þá þurfti að laga kojur og svefnaðstöðu á eftri hæð.
Er þessu var lokið var byggingasjóðurinn tómur. Og nú varð að reyna á dugnað og lægni Íslendinga sjálfra er bjuggu í Osló, ekki síst hins fjölmenna hóps íslenskra stúdenta. Nú voru skipulagðar reglulega vinnuferðir upp í hús til að sinna þar endurbótum.
Endurbætur á húsinu

Gufubaðið

Í kjallara hússins var herbergi þar sem upplagt var að koma fyrir sturtu og gufubaði, svo í þær framkvæmdir var ráðist, upphaflega af meira kappi en forsjá. Menn smíðuðu fyrst gufubaðið, einangruðu, klæddu með furupanel og komu fyrir bekkjum og gufubaðsofni. Og svo fóru menn glaðir í gufubað. En það vildi ekki hitna. Sagt var í gamni að menn þyrftu þar að berja sig til hita. Nú var leitað upplýsinga og kom þá í ljós að það hafði verið sett alltof lítil einangrun áður en klætt var. Nú var rifið innan úr gufubaðinu og veggir og loft vel einangruð og furupanellinn negldur aftur á veggi. Nú hitnaði vel en þá kom upp annað vandamál. Þegar vel var orðið heitt lak trjákvoða úr furuklæddum veggjum og lofti. Nú var leitað til norskra sérfræðinga á þessu sviði sem gátu upplýst Íslendingana um að í gufubað er aldrei notuð fura, vegna trjákvoðunnar, heldur greni!
Þá var smíðuð verönd við framhlið hússins, beggja vegna inngöngudyra.

Rauði krossinn í Noregi fær húsið að láni – Ný eldhúsinnrétting

Árið 1973 gerast þeir atburðir á Íslandi að það verða eldsumbrot í Vestmannaeyjum og allir eyjaskeggjar fluttir upp á land. Á Norðurlöndum var hafin mikil söfnun til styrktar flóttafólkinu og voru Norðmenn þar duglegir og örlátir. M.a. ákvað Rauðikrossinn í Noregi að bjóða öllum börnum frá Vestmannaeyjum í tveggja vikna sumsarleyfi til Noregs. Til þess þuftu þeir húsnæði fyrir móttöku á þessum börnum. Þeir fóru því á leit við Íslendingafélagið í Osló að það leigði Rauða Krossinum Íslendingahúsið við Norefjell til móttöku þessara íslensku barna.
Á þetta var fallist. En vandamálið var bara það að eldhúsaðstaða var mjög léleg, aðeins viðarkamína og mjög lélegir eldhússkápa. Því varð það að samkomulagi að Rauði Krossinn norski léti setja nýja eldhúsinnréttingu í húsið og laga alla eldhúsaðstöðu svo hægt væri að taka á móti þessum hópum frá Íslandi, og kæmi það fyrir leigu á húsnæðinu.

bottom of page