Tilurð félagsins

Á fullveldisdaginn þann 1. desember 1923 boðaði Ingimundur Eyjólfsson, sem starfaði sem ljósmyndari í Oslo, nokkra Íslendinga á fund til að stofna Íslendingafélag. Talið var að þá byggju um 30 – 40 Íslendingar í Osló. Margir þeirra voru konur sem giftar voru Norðmönnum. Á þessum fundi var Íslendingafélagið í Osló stofnað. Nokkuð var þar rætt um að hið nýstofnaða félag þyrfti að koma sér upp aðstöðu fyrir félagsmenn að koma saman af ýmsu tilefni. Á fundinum var því samþykkt að stofna „byggingarsjóð Íslendingafélagsins“ sem ætlað var standa að nýbyggingu eða kaupum á húsnæði fyrir félagið. Stofnfé sjóðsins var framlög þeirra sem á stofnfundinn mættu og lagði Ingimundur sjálfur fram 100 kr í sjóðinn.
Næstu árin safnaðist smá saman nokkurt fé í sjóðinn með framlögum félagsmanna auk þess sem nokkrum sinnum var stofnað til kökubasar til ágóða fyrir sjóðinn.
Á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930, er Íslendingar héldu uppá þúsund ára afmæli Alþingis, var mættur fulltrúi Osló borgar. Þar tilkynnti hann að borgarstjórn Oslóar hefði samþykkt að í þessu tilefni ætlaði borgin að gefa í byggingarsjóð Íslendingafélagsins í Osló 30 þúsund norskar krónur. Gjafabréf var afhent en greiðsla fór ekki fram fyrr en löngu seinna og verður komið að því síðar.